Tíð / Hvörf

Pétur Thomsen

14. maí – 1. ágúst 2016

Sigrún Alba Sigurðardóttir, menningarfræðingur og lektor við Listaháskóla Íslands

Skapandi dvelur maðurinn

Hver skapar heiminn? Er það konan sem stendur ein úti í bjartri sumarnóttinni með skóflu sér við hönd? Er það maðurinn sem stendur einn úti í svartri vetrar- nóttinni með ljósmyndavélina í annarri hendi og ljóskastara í hinni? Eða hefur maðurinn sjálfur ekkert með sköpun heimsins að gera? Skapar náttúran sig sjálf?

Náttúran er þetta óreiðukennda afl sem vex óhindrað bæði innra með okkur og utan við okkur.

Án hennar væri ekkert líf, engin ástríða, ekkert flæði og enginn dauði. Náttúran bæði skapar líf og eyðir lífi. Á hverjum degi reynum við að beisla þetta líf, bæði það líf sem bærir á sér innra með okkur og það líf sem á sér stað utan við okkur. Við þjálfum líkamann, tökum inn lyf til að hemja óæskilega þróun, höfum stjórn á löngunum okkar og beinum ástríðum okkar í æskilegan farveg. Við gröfum skurði, gróðursetjum tré, mörkum okkur leið, finnum okkur stað, hverfum frá náttúrunni og inn í heim röksemda, skynsemi og hagvaxtar. Þannig mótast líf okkar af sífelldri baráttu við náttúruna sem býr bæði innra með okkur og utan við okkur. Við getum ekki leyft henni að vaxa óhindrað en við getum heldur ekki náð fullkomnu taki á henni. Náttúran er ófyrirsjáanleg. Hún á sér fleiri birtingar- myndir en okkur gæti órað fyrir. Þegar náttúran hættir að koma okkur á óvart hættir hún líka að vera til sem slík. Verður eitthvað annað. Hluti af mælanlegum, útreiknanlegum og manngerðum veruleika. Umhverfi mannsins.

Maðurinn stendur einn úti í nóttinni og myndar bæði umhverfið sem hann hefur skapað og náttúruna sem hann hefur enga stjórn á. Hann lýsir upp umhverfið, festir augun á smáatriðum og veltir fyrir sér hvernig tíminn hefur sett mark sitt á lífið í kringum hann. Hvernig náttúran breytist dag frá degi. Lauf sölnar, snjókorn fellur, birtan breytist. Hann dregur að sér andann, samlagast umhverfinu, verður um stund hluti af náttúrunni, en dregur síðan fram ljóskastarann og ljósmyndavélina, skráir, umbreytir og skapar. Ljósmyndin sem miðill fjallar öðrum þræði um tímann og viðleitni mannsins til að varðveita hið liðna eða draga fram afmarkaða þræði úr flæði tímans. Í daglegu lífi upplifum við veruleikann sem eina heild, við horfum, hlustum, snertum, meðtökum hitabreytingar og lykt, hreyfum okkur um í rými, tökum samtímis mið af hinum mælanlega tíma og okkar innri tíma sem stjórnar því hversu hratt eða hægt við skynjum flæði veruleikans. Ljósmyndin getur rofið þetta flæði en hún getur einnig þjappað því saman í eitt afmarkað augnablik, skurðpunkt tímans.

Ljósmyndir Péturs Thomsen af lifandi gróðri sem vex og umbreytist í skjóli nætur fjalla bæði um náttúruna sjálfa og smáatriðin sem við tökum sjaldan eftir í daglegu flæði tímans. Þær fjalla líka um inngrip mannsins í þessa sömu náttúru, hvernig maðurinn, meðvitað eða ómeðvitað, hefur áhrif á náttúruna. Hvernig hann bæði traðkar þungstígur á viðkvæmum gróðri, gróðursetur, mokar, nemur á brott og lýsir upp jurtir og plöntur og setur þannig taktinn í náttúrunni úr skorðum. Tæknin gerir honum kleift að sjá það sem myrkrið felur. Ljósmyndarinn er eins og rannsóknarmaður á vettvangi. Hann horfir athugull í kringum sig, leitar að ummerkjum, dregur fram smaátriði sem öðrum gætu yfirsést, skrásetur og raðar saman. Í alþjóðlegu samhengi er talað um fagurfræði sem mótast hefur af aðferðafræði réttarrannsókna (e. forensics) í þessu samhengi og má bæði greina slíkar áherslur í fréttaljósmyndum og myndlist.¹ Með ljósmyndum sínum af umhverfinu í Upphæðum við Sólheima í Grímsnesi, af sandnámum í Ingólfsfjalli og skurðum sem ræsa fram mýrlendi í þágu landbúnanaðarins á Suðurlandi skrifar Pétur Thomsen sig inn í þá hefð. Í stað þess að sýna glæpinn eða gjörninginn sjálfan beinir hann sjónum að smáatriðum og ummerkjum í umhverfinu sem vísa út fyrir sig og felur þannig áhorfandanum að túlka niðurstöðurnar. Við virðum fyrir okkur laufblöð sem með manngerðri lýsingu fá á sig gylltan blæ og sjáum hvernig marg- slungin form á hversdagslegri trjágrein eru dregin fram og upphafin á svörtum fleti. Jólatré sem eitt sinn var stofustáss öðlast nýja merkingu þar sem það veltist um eins og aðskotahlutur úti í náttúru sem það var eitt sinn hluti af en tilheyrir ekki lengur á sama hátt. Tíminn og birtan sem ljósmyndarinn fangar birta okkur hið stöðuga flæði náttúrunnar þar sem líf og dauði renna saman í eina heild, ekkert varir að eilfíu en það sem deyr gefur líf og það sem tekur enda skapar forsendur fyrir eitthvað annað. Ljósmyndin er vitnisburður um viðleitni mannsins til að ná taki á þessu ferli – fanga flæði tímans – áður en það hverfur.

Á sýningunni Tíð / Hvörf vinnur Pétur Thomsen áfram með þá umhverfingu á náttúrunni sem hefur verið áberandi í fyrri verkum hans, bæði í ljósmyndum hans af virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar í myndaröðinni Aðflutt landslag og í verkunum Umhverfing og Ásfjall. Verk þessi hafa meðal annars verið sýnd á Listasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands. Heimspeki Páls Skúlasonar og skrif hans um það hvernig maðurinn umbreytir náttúrunni sífellt í umhverfi í eigin þágu hefur haft töluverð áhrif á verk og nálgun Péturs.² Páll skilgreinir umhverfi sem „afurð af því sköpunarstarfi manna sem fram fer þegar þeir leitast við að breyta náttúrulegum aðstæðum og laga þær eftir þörfum sínum og óskum“.³ Maðurinn sér náttúruna sem skapandi afl sem hann þráir að ná valdi á um leið og hann áttar sig á því að aðeins vegna þess að hann getur skilgreint sjálfan sig sem veru sem stendur utan við náttúruna sjálfa getur hann skilgreint sig sem skapandi einstakling. Maðurinn er hluti af náttúrunni um leið og hann stendur utan við hana. Um þetta fjallar Pétur í verkum sínum á sýningunni Tíð / Hvörf og endurómar þannig hugmyndir sem rekja má allt til þess tíma þegar ljósmyndin var fundin upp í byrjun 19. aldar.

Á bakvið ljósmyndina býr einföld efnafræðileg uppfinning og í sjálfu sér verður að teljast undarlegt að þessi einfalda uppfinning hafi ekki komið fram fyrr en á 19. öld. Franski heimspekingurinn Michel Foucault fjallaði um hvernig tíðarandi hvers tímabils tengist því sem hann kallar þekkingarrými tímabilsins en hugtakið þekkingarrými (fr. epistemé) má nota til að lýsa möguleikum og takmörkunum hugsunarinnar hverju sinni. Í bók sinni Les mots et les choses (Orðin og hlutirnir) færir Foucault rök fyrir því að um aldamótin 1800 hafi þær þekkingarlegu forsendur verið komnar fram sem gerðu manninum kleift að upplifa sjálfan sig sem hvort tveggja í senn, huglæga sjálfsveru og hlutveru sem er í einhverjum skilningi ófrjáls í hugsun og þar með athöfnum.Maðurinn skynjaði sjálfan sig með öðrum orðum sem hluta af náttúrunni á sama tíma og hann upplifði að hann væri fær um að skilja sig frá náttúrunni. Það sem einkennir „nútíma- manninn“ í þessum skilningi er að hann viðurkennir takmörk sín, en reynir jafnframt að yfirstíga þau með því að beita fyrir sig vísindalegum aðferðum, og uppgötvar um leið möguleikana sem felast í því að nálgast veruleikann út frá eigin forsendum og á annan hátt en áður var mögulegt. Nútímamaðurinn gerir sér grein fyrir því að sannleikurinn er ekki fullkomlega á hans valdi, milli hans og veruleikans eru ákveðin mörk en um leið er það hið huglæga mat hans á þessum veruleika sem veitir honum aðgang að sannleikanum. Sannleikurinn verður þannig í senn algildur og afstæður. Þetta rof milli hins algilda og hins afstæða sannleika verður til þess að innra með manninum kviknar þrá til að yfirstíga hið óbrúanlega bil milli sjálfs sín og veruleikans. Hann þráir að ná tökum á veruleikanum, finna upp aðferð sem gerir honum kleift að draga upp hlutlæga og sanna mynd af þeim veruleika sem umlykur hann.

Í bókinni Burning with Desire (Brennandi af þrá) gerir Geoffrey Batchen grein fyrir því hvernig þrá mannsins til að ná tökum á veruleikanum með þessum hætti breyttist smám saman upp úr aldamótunum 1800 úr fantasíutengdum draumórum í raunhæfar tilraunir vísindamanna. Vísindamenn í Bretlandi, Frakklandi, Brasilíu og Bandaríkjunum unnu hver í sínu horni, og án þess að bera sig saman, að tilraunum sem allar miðuðu að sama marki, að finna leið til að fanga veruleikann með aðstoð sólarinnar og efnablöndu sem enn hafði ekki verið fundin upp.Í Bretlandi varð stærðfræðingurinn, málvísindamaðurinn og frístunda- málarinn Henry Fox Talbot fyrstur til að kynna aðferð sem hann hafði þróað til að festa skuggamynd náttúrunnar á pappír sem bleyttur hafði verið með ljósnæmum vökvum. Árið 1840 fékk hann einkaleyfi á þessari tækni og var uppgötvun hans kölluð Talbottýpa. Hugmyndina að þessari uppfinningu sagðist hann hafa fengið sjö árum fyrr þar sem hann stóð við Comovatn á Ítalíu og reyndi ítrekað að draga upp trúverðuga og raunsanna mynd af umhverfinu sem við honum blasti, en án árangurs. Hann sagði svo frá: „Allt í einu fékk ég þessa hugmynd […] hversu dásamlegt væri það ef hægt væri að fá náttúruna sjálfa til að skilja eftir sig varanlega mynd á pappírnum?“Á ljósmyndinni er það nefnilega náttúran sjálf sem skilur eftir sig ummerki. Á bakvið hverja ljósmynd eru ákveðin efnahvörf en það er ekki náttúran sjálf sem kemur þessum efnahvörfum af stað heldur mannlegt inngrip. Í greinargerð sem Talbot lagði fyrir Bresku vísindaakademíuna og kallaði Photogenic Drawing or Nature Painted by Herself gerði hann samspil manns og náttúru að umfjöllunarefni. Þar bendir hann á að ljósmyndun sé hvort tveggja í senn, aðferð til að draga upp mynd á skapandi hátt og kerfi sem felur í sér endurbirtingu á veruleikanum án þess að nokkurt mannlegt inngrip þar við sögu. Þessi fullyrðing skilgreinir náttúruna sem hvort tveggja í senn, virkan geranda og óvirkan þátttakanda, rétt eins og ljósmyndin sjálf er ætíð í senn afsprengi náttúrunnar og menningarleg afurð.

Henry Fox Talbot leit á ljósmyndina sem hvort tveggja í senn, skapandi miðil sem hann gat nýtt til að rannsaka heiminn og tæki sem auðveldaði honum að skrásetja flæði tímans og það sem fyrir augu hans bar. Ljósmyndir hans eru heimild um þann veruleika sem við honum blasti á bresku sveitasetri í byrjun 19. aldar en þær eru einnig heimild um sýn hans á heiminn, viðhorf til náttúrunnar, innri togstreitu og þrá til að varðveita veruleikann og setja um leið mark sitt á hann. Sagan um Talbot er þess vegna sú saga sem kemur upp í hugann þegar ég virði fyrir mér ljósmyndir Péturs Thomsen og sé hann fyrir mér læðast um með ljósmyndavélina í skjóli myrkurs og nætur, lýsa upp heiminn og fanga um leið brot af flæði tímans á mynd. Pétur fangar náttúruna eins og hún er en hann er líka meðvitaður um að náttúran birtist hverjum og einum áhorfanda alltaf á tiltekinn hátt. Hvernig er náttúran til ef sjónarhorn mannsins beinist ekki að henni? Hvernig mótar sjónarhorn mannsins náttúruna sem birtist honum? Í bók sinni Fyrirbærafræði segir danski heimspekingurinn Dan Zahavi: „Fyrirbærið er það hvernig hluturinn birtist okkur, séð með okkar augum, en ekki hvernig hluturinn er í sjálfum sér,“ og bætir svo við: „Sé ætlun okkar sú að ná tökum á því hvernig hluturinn er raunverulega úr garði gerður, ber okkur þvert á móti að beina athyglinni að því hvernig hann opinberast og birtist, hvort heldur í skynrænni reynslu eða vísindalegri greiningu.“Með öðrum orðum þá snertir sjónarhorn mannsins ætíð veruleikann og hefur áhrif á það hvernig hann birtist okkur, hvort sem er á ljósmynd eða í raunveruleikanum, og gildir þá engu hvaða aðferðum við beitum til að snerta á og skilgreina það sem við okkur blasir. „Ég leik mér mjög meðvitað með sjónarhornið í list minni,“ segir Pétur Thomsen. „Verkin mín eru öll mjög huglæg og eru fyrst og fremst heimild um það hvernig ég sé hlutina og tjái mig um það sem ég sé. Landslagsmyndirnar mínar endurspegla þetta. Ég hef alltaf skilgreint landslag sem sjónarhorn sem er tengt menningarlegu uppeldi og táknkerfi menningarinnar. Í ljósmyndunum er ég að búa til landslag og færa það áhorfendum.“¹⁰ Við gerð verkanna á sýningunni Tíð / Hvörf notar Pétur stafræna vél. Á ljósmyndum hans eru engin náttúruleg efnahvörf að verki heldur manngerðar formúlur sem breyta ljósi í töluleg gildi og upplýsingar sem síðan breytast í eftirmynd veruleikans. Þrátt fyrir það á Pétur ýmislegt sameiginlegt með fyrstu ljósmyndurunum eins og Henry Fox Talbot og þrátt fyrir að nærri tvöhundruð ár skilji að verk þeirra í tíma virðast þeir báðir búa yfir þeim hæfileika að dvelja skapandi og ljóðrænt í umhverfi sínu. Á ljósmyndum þeirra má auðveldlega sjá hvernig maðurinn sem dvelur í náttúrunni verður hluti af flæði tímans, hvernig hann verður hluti af náttúrunni á sama tíma og hann umbreytir henni á skapandi hátt. Ljóðrænt dvelur maðurinn er nafn á texta eftir þýska heimspekinginn Martin Heidegger en þann titil sækir Heidegger til ljóðskáldsins Hölderlin.¹¹ Í ljóði sínu tengir Hölderlin saman dvöl mannsins á jörðinni, stjörnubjartan himinninn og vanmátt okkar til að mæla það sem máli skiptir í heiminum. Maðurinn sem læðist út um nætur til að taka ljósmyndir af flæði tímans er ekki hlutlaus skráningarmaður heldur dvelur hann ljóðrænt og skapandi í umhverfi sínu, hann umbreytir því og nemur samspil náttúru og menningar í djúpri þögn þar sem tíminn er ekki brotinn upp með manngerðum mæli- kvarða heldur rennur saman við andardrátt lífsins.

  1. Paul Lowe, „The Forensic Turn: Bearing Witness and the Thingness of the Photograph“ í The Violence of the Image: Photography and International Conflict, ritstj. Liam Kennedy og Caitlin Patrich. I. B. Tauris, 2014.
  2. Sigrún Alba Sigurðardóttir, „Um hverfi” í Pétur Thomsen: Ásfjall, Þjóðminjasafn Íslands, 2011. Sjá jafnframt viðtal mitt við Pétur Thomsen: Sigrún Alba Sigurðardóttir, „Pétur Thomsen. Tímabundið landslag.“ Endurkast. Íslensk samtímaljósmyndun/Reflection. Icelandic Contemporary Photography, Þjóðminjasafn Íslands, 2008.
  3. Páll Skúlason, Umhverfing. Um siðfræði umhverfis og náttúru. Háskólaútgáfan, 1998, bls. 35.
  4. Michel Foucault, Les mots et les choses. Une Archéologie des sciences humaines. Éditions Gallimard, 1966.
  5. Um þetta hef ég áður fjallað í bókinni Afturgöngur og afskipti af sannleikanum. Þjóðminjasafn Íslands, 2009.
  6. Geoffrey Batchen: Burning with Desire. The Conception of Photography. The MIT Press, 1999.
  7. William Henry Fox Talbot, „A Brief Historical Sketch of the Invention of the Art.“ Classic Essays on Photography. Leete’s Island Books, 1980.
  8. Geoffrey Batchen: Burning with Desire, bls. 68–69.
  9. Dan Zahavi, Fyrirbærafræði. Björn Þorsteinsson þýddi. Heimspeki-
    stofnun – Háskólaútgáfan, 2008, bls. 13 og 15.
  10. Sigrún Alba Sigurðardóttir, „Pétur Thomsen. Tímabundið landslag,“ bls. 22.
  11. Martin Heidegger, „… Poetically Man Dwells ….” í Poetry, Language, Thought. Harper Collins Publishers, 1971.

Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf.: