Ljósmyndir (c) Simone De Greef og Kristín Scheving.

Summa & Sundrung

Gary Hill, Steina & Woody Vasulka

17. september – 23. desember 2022

Samvinnuverkefnið Summa & Sundrung varð til sem tækifæri til að skoða og leggja áherslu á skurðpunkta, kanna margbreytileika, og gefa áhorfendum möguleika á að ferðast um verk vídeó- og raflistarfrumkvöðlanna Garys Hill, Steinu og Woodys Vasulka, með því að leggja stíga í gegnum yfirgripsmikið höfundarverk listafólksins. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á sameiginlega eiginleika elstu verka þeirra og hvernig listræn vinna þeirra þróaðist svo sitt í hverja áttina; á hugtakslega, framkvæmda og íhugula túlkun hins efnislega og hins smávægilega í þremur einstökum ferlum sem endurspegla sérstæði hvers og eins þeirra og einstæða málskipan. Róf þeirra verka sem hér eru til sýnis spannar áratugi og tekur til verka frá því snemma á ferlinum þar sem unnið er með rafræn úrvinnslutæki til að skrá í rauntíma gagnvirkni véla, frammistöðu þeirra og notkun til að efla skynjunina. Önnur verk endurspegla þróun orðfæris hvers og eins þeirra og sýna hvernig listamennirnir nota, skoða eða víkja frá algóritmanum eða kóðanum á einstakan hátt með tilraunakenndum athugunum. Hið gagnkvæma rannsóknarsamband milli hljóðs og myndar býður upp á að gestir íhugi og dragi í efa eðli, uppruna og samhengi miðilsins sjálfs og þeirra upplýsinga sem hann ber og miðlar. Hin sjaldséðu tilraunaverk Woodys Vasulka, Peril in Orbit og 360 degree space records er að finna á sýningunni. Tvö ný verk hafa verið unnin sérstaklega fyrir Summu & Sundrungu: Parallel Trajectories eftir Steinu rekur, fer aftur í og enduruppgötvar sjónrænt tungumál samvinnuverkefna Vasulka-hjónanna; og Gary Hill færir okkur verkið None of the Above, þar sem listamaðurinn fer með sjálfhverfan texta og skapar eðlislægar vísanir með handahreyfingum.

Sýningarstjórar eru Jennifer Helia DeFelice, Halldór Björn Runólfsson og Kristín Scheving.

www.garyhill.com

www.vasulka.org

————–

Einn plús einn eru jafnt og þrír: „Summa og sundrung: Gary Hill, Steina & Woody Vasulka“

„Matisse/Picasso,“ „Manet/Degas,“ „Hilma af Klint & Piet Mondrian“ … Sýningar með tveimur listamönnum virðast vera í uppáhaldi hjá listastofnunum. Takið tvo listamenn, stefnið þeim hvorum gegn öðrum, líkt og í einhvers konar keppni, og það mun slá í gegn. Stundum lukkast þessi formúla líka út frá listrænu sjónarmiði, og stundum hreint ekki. Maður hefði haldið að það væri jafnvel erfiðara þegar listamennirnir eru þrír en ekki tveir, eins og í „Summa & sundrung“, þar sem verk Garys Hill, Steinu og Woodys Vasulka koma saman. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta yfirlit yfir þrjá af áhrifamestu frumkvöðlum myndbands- og stafrænnar listar skar sig úr sem sérstaklega skýrt og glæsilegt dæmi um stjórn á tví- eða þrímenningssýningum. Sýningin var ekki hefðbundin yfirlitssýning heldur veitti hún innsýn í lykilþætti höfundarverks hvers listamanns fyrir sig í gegnum sérvalin verk (kvikmyndir, einnar-rásar myndbönd, innsetningar og ljósmyndir). Þrír skjáir með æskimyndakerfi voru settir upp í anddyri beggja sýningarstaða (sýningin var opnuð í Listasafni Árnesinga og fór þaðan til House of Arts Brno í Tékklandi), sem gerði áhorfendum kleift að ljúka heimsókn sinni með því að skoða, burtséð frá aðalsýningunni, úrval dæmigerðustu einnar-rásar myndbandanna eftir hvert og eitt listamannanna. Sýningin forðaðist grunnfærnislegan eða gerviformfræðilegan samanburð en leyfði verkunum að hljóma frjálst saman, gaf þeim nægt rými til að „anda“ og breiða úr alltumlykjandi, íhugulli fegurð sinni.

Auðvitað var það ekki verra að listafólkið á sýningunni passaði mjög vel saman. Í fyrsta lagi voru Steina og Woody Vasulka par í lífi og starfi. Íslendingurinn Steina og Tékkinn Woody hittust snemma á sjöunda áratug síðustu aldar í Prag, þar sem hún var að læra á fiðlu og hann kvikmyndagerð við Kvikmyndaskólann. Þau giftu sig 1964 og fluttu skömmu síðar til Bandaríkjanna, þar sem þau uppgötvuðu myndbandagerð í lok áratugarins og urðu bæði gagntekin af þeim möguleikum sem hún bauð upp á í tengslum við að vinna beint með rafsegulorku. Upp frá því helguðu þau sig kerfisbundnum rannsóknum á eiginleikum þessa nýuppgötvaða miðils, fyrst í náinni samvinnu, síðar hvort í sínu lagi, en alltaf í samspili sín á milli. Þótt Gary Hill væri yngri en þau hóf hann að gera tilraunir með myndbönd um svipað leyti og var í sömu kreðsu bandarísks tilraunalistafólks á sviði myndbanda og rafrænnar tónlistar. Ennfremur, þegar þau þrjú hittust loksins, undir lok áttunda áratugarins, fundu þau strax til andlegs skyldleika. Þau deildu sömu grunnhugmyndinni um að rafræna myndin væri nýtt, sértækt tungumál með sínar eigin sértæku reglur og að það væri tólið eða vélin, frekar en „listamaðurinn“, sem skipti höfuðmáli í sköpunarferlinu. Þetta þýðir þó ekki að listsköpun þeirra hafi minnt á síðbúnar æfingar módernískrar umræðu um sérhæfða miðla, sem var greinilega á útleið á þessum tíma. Þvert á móti, eins og sást á sýningunni, sem náði yfir tímann frá áttunda áratugnum fram á þennan dag, eiga verk bæði Vasulka-hjónanna og Hills skilið viðurkenningu sem mikilvægir áfangar í þróun hins stafræna tíma, þar sem véllæsi verður sífellt mikilvægara.

Á sama tíma, og eins og titill sýningarinnar bar með sér, er nálgun hvers hinna þriggja listamanna svo ólík að ekki þarf að tala um nein áhrif eða samkeppni í umfjöllun um list þeirra. „Summa & sundrung“: frasinn vísar til merkjavinnsluhlutverks hringmótunar í raftækni. Hringmótari gegnir því hlutverki að blanda tveimur tíðnum til summu og sundrungar. Bæði Vasulka-hjónin og Hill voru í raun sérfræðingar í merkjavinnslu, aðferð sem þau kynntust fyrst vegna sameiginlegs áhuga síns á raftónlist. Á óhlutbundnari hátt vísaði titill sýningarinnar í hugmyndina um ósamhverfuna sem kom endurtekið upp í mörgum verkanna sem til sýnis eru. Hugtakið gefur til kynna aðstæður sem skortir ekki beint samhverfu en engu að síður er örlítið ósamræmi eða ójafnvægi á milli tveggja mynstra eða eininga. Í stuttu máli er þetta það sem við meinum þegar við segjum að tveir hlutir séu eins en samt frábrugðnir hvor öðrum.

Á vissan hátt á þetta við um tengslin á milli ímyndar og tungumáls, eins og kemur berlega fram í innsetningu Garys Hill, Language Pit (2016-2021). Í verkinu eru örmyndavélar lagðar á útlag tveggja hátalarakeilna sem komið er fyrir á stalli. Myndavélarnar taka upp rýmið og myndunum er varpað á tvo skjái sem hanga hlið við hlið á veggnum á móti hátölurunum. Titringurinn úr hljóðinu frá hátölurunum veldur því að myndavélarnar skoppa á þeim og myndaflæðið verður fyrir stöðugri truflun. Uppstilling hátalaranna og skjáanna minnir á tvenn pör af augum en þótt við gleymum tvísæiseiginleikum sjónarinnar í daglegu lífi er ósamhverfan undirstrikuð hér um leið og verkið raskar aðgreiningu hljóðs og myndar.

Verkið er þó ekki allt háspekilegt. Textinn sem berst úr hátölurunum, lesinn með herskárri, vélrænni röddu, var innblásinn af eðlislægum viðbrögðum Hills við kosningu Donalds Trump. Þannig tekst listamaðurinn á við vaxandi harðýgi í stjórnmálum og útbreiðslu eftirlitskerfa í stjórnsjúkum samfélögum okkar, sem Gilles Deleuze sá fyrir snemma á tíunda áratug síðustu aldar en hafa fyrst orðið að veruleika með nýtilkominni útbreiðslu stafrænnar tækni. Eitt af því sem hefur ráðið úrslitum um þessa þróun er tilkoma forsagnaralgríma, sem Hill skorar engu að síður á hólm í texta innsetningar sinnar: „Algrímin segja fyrir um niðurstöður. Af hverju?“ Líkur eru einnig aðalviðfangsefnið í Place Holder (2019), myndbandi þar sem listamaðurinn snýr að áhorfandanum og kastar peningi í sífellu til að gá hvor hliðin komi upp. Verkið vísar í gervigreind en á þann hátt að minnir á gömul og góð töfrabrögð. Annaðhvort/eða rytminn í peningakastinu kemur aftur fyrir í stælingu á tvíundarrökfræði algebru Georges Boole, í óreglulegri klippingu verksins None of the Above (2022), myndbandi sem Hill frumsýndi á sýningunni. Þar mætir áhorfandanum stór mynd af listamanninum að fara með texta sem kannar „sama mun“ á núlli og einum. Stafrænar tímafærslubrellur valda því að mynd og hljóð hikstar. Með því að taka fyrir augun, eyrun og munninn, með hreyfingum sem minna á orðatiltækin „sjá ekkert illt,“ „heyra ekkert illt,“ og „segja ekkert illt,“ minnir Hill ennfremur á að stafræn tækni hafi ýtt undir sjálfhverfar tilhneigingar mannkynsins.

Grannfræðileg hringlögun hins innra og ytra er sömuleiðis sjáanleg í eldra verki Hills, Klein Bottle with the Image of Its Own Making (after Robert Morris) (2014), rúmfræðiglerhlut sem minnir á Möbius-ræmu, sem „inniheldur“ birtingu myndbandsins um sína eigin tilurð. Verkið er virðingarvottur við skúlptúr naumhyggjulistamannsins Roberts Morris, Box with the Sound of Its Own Making (1961), afmyndað í lögun og minnir á eimingarflösku alkemistans, og undirstrikar einnig sveigjanleika rafrænnu myndarinnar. Á ólíkan, en skyldan, hátt unnu Steina og Woody Vasulka með efnisleika og jafnvel „hlutveruleika“ rafrænu myndarinnar. Í verki Steinu, Bad (1979), sem er tilraun með eitt af fyrstu stafrænu myndvinnslutólunum sem Vasulka-hjónin sjálf fundu upp með hjálp verkfræðingsins Jeffrey Schier, er ímyndin látin afhjúpa sína eigin efnislegu áferð. Dularfullur titill verksins vísar mögulega í það hvernig Steina truflaði á meðvitaðan hátt venjulega virkni tækninnar svo að úr varð avant la lettre meistarastykki skriksins. „Bad“ bergmálar líka hið „illa“ hjá Hill og gefur til kynna eitthvað órjúfanlega djöfullegt við rafræna miðla. Þessi hugmynd gegnsýrir líka hið draugalega verk Woodys Vasulka Electromagnetic Objects (1975), abstrakt myndbönd sem sýna hvít, þrívíð form, spunnin úr undarlega loftkenndu efni rafrænu myndarinnar, svífandi á svörtum bakgrunni. Þótt þessi verk, myndrænir ættingjar hljóðhluta musique concrète, séu gerð með flaumrænu tóli (Rutt/Etra Scan-gjörvanum), eru þau einnig beintengd við tilkomu „myndhluta“ (e. image object) í tölvuteiknun.

Af listamönnunum þremur í „Summu & sundrungu“ er Woody Vasulka, sem því miður lést í desember 2019, líklega – og óverðskuldað – minnst þekktur. Með Parallel Trajectories (2022), myndbandi sem einnig var frumsýnt á sýningunni, leitaðist Steina við að bæta úr því og sýna fyrrum maka sínum virðingu. Með því að flétta saman klippum úr eigin verkum og hans, sýnir listakonan á sinn hátt þann ó-evklíðska sannleik að hliðstæður geti mæst. Annar hápunktur sýningarinnar var sýning á tveimur af elstu og sjaldséðustu kvikmyndum Woodys Vasulka. Myndirnar voru gerðar 1968, rétt eftir að hann uppgötvaði myndbandið, heita Peril in Orbit og 360 Degree Space Records, og eru þriggja skjáa innsetningar sem áttu upptök í þráhyggju Woodys fyrir að losa myndina úr viðjum rammans. Peril in Orbit er sérstaklega áhugaverð að því leyti að hún sýnir myndavélina sem listamaðurinn, lærður verkfræðingur, hannaði til að ná að taka samfellda 360-gráðu mynd. Sumar af þessum vélum voru síðar endurnýjaðar til að þjóna Machine Visions (1975-), mikilvægum innsetningum Steinu. Þessar aðstæður, þar sem spáð var fyrir um orðræðu dagsins í dag um tölvusýn og afmiðjun mannsaugans, mátti finna í sýningunni, þökk sé hinum heillandi myndböndum Switch! Monitor! Drift! og Orbital Obsessions (1975-1977) sem listakonan skapaði með þeim.

Segja má að ein aðallexía sýningarinnar sé sú að nýjabrum hinna svokölluðu nýju miðla sé álíka gamalt og miðaldahandritin sem geyma Íslendingasögurnar, sem Steina snýr stafrænt upp á í myndbandinu Bókfell / Pergament (2014). Fyrir íslensku listakonuna, sem yfirgaf heimaland sitt fyrir meira en hálfri öld, er verkið einhvers konar heimkoma. En, líkt og gildir um önnur verk á sýningunni „Summa & sundrung,“ er enga fortíðarþrá að finna þar: verkið sýnir einfaldlega hvernig list og tækni snúa alltaf staðfræðilegu baki við fortíðinni til að eiga greiðari leið inn í framtíðina.

Larisa Dryansky

Listfræðingur við Sorbonne háskóla í París

1. Sjá Jacob Gaboury, Image Objects: An Archaeology of Computer Graphics (Cambridge, Mass.: MIT Press, 2021).

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf:

.

Sýningin er styrkt af: